Stórsveit ReykjavíKUr

Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð í febrúarmánuði 1992. Helsti hvatamaður að stofnun hennar var Sæbjörn Jónsson en hann var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar frá upphafi til ársins 1999. Þá urðu þáttaskil í rekstri sveitarinnar og síðan þá hefur einkum verið unnið með virtum erlendum gestastjórnendum eða leiðandi einstaklingum í íslensku jazzlífi.

Stórsveit Reykjavíkur situr í tröppunum í tónleikahúsinu Hörpu

Meðlimir

Sveitin telur alla jafna 17 hljóðfæraleikara; 5 saxófóna, 4 trompeta, 4 básúnur og fjögurra manna hrynsveit. Frá hausti 2023 hafa allar stöður í hrynsveitinni verið opnar og valið í þær eftir verkefnum. Í heimi rytmískrar tónlistar á Íslandi skipar stórsveitin svipaðan sess og Sinfóníuhljómsveit Íslands gerir í klassískri tónlist. Hún er fjölmennasti tónlistarhópur landsins á þessu sviði, samnefnari þeirra sem leggja með alvarlegum hætti stund á aðra tónlist en klassíska.

Saxafónleikarar Stórsveitar Reykjavíkur standa upp og spila
Friðrik Ómar og Jógvan Hansen syngja með stórsveitinni á tónleikunum Gullöld Sveiflunnar.

Verkefni og útgáfa

Stórsveit Reykjavíkur hefur á undanförnum þrjátíu árum haldið vel á þriðja hundrað tónleika, flesta í Hörpu þar sem sveitin hefur átt sér heimili síðan 2012, en einnig víðar í Reykjavík á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Sveitin hefur farið í tvær tónleikaferðir erlendis, annarsvegar til Svíþjóðar og hinsvegar til Danmerkur. Sveitin hefur lagt sig eftir breiðum stíl tónlistarlega séð; flutt nýja og framsækna íslenska og erlenda tónlist, en einnig leikið vinsæl eldri verk með þekktustu söngvurum þjóðarinnar. Þannig spanna fáir tónlistarhópar álíka breidd og Stórsveit Reykjavíkur, frá hinu nýjasta og sértækasta til hins alþýðlegasta. Stórsveitin heldur að jafnaði 6-8 átta tónleika á hverju starfsári. Sveitin hefur gefið út tólf geisladiska, flesta í samvinnu við höfunda tónlistarinnar.

Tónleikar

Á hverju starfsári eru að minnsta kosti haldnir einir tónleikar sem leggja áherslu á frumflutning nýrrar íslenskrar tónlistar, einir tónleikar með spennandi erlendum gestastjórnanda, einir til tvennir með áherslu á sögulega stórsveitatónlist frá ólíkum tímabilum og einir sem eru sniðnir fyrir börn og fjölskyldur. Auk þess stendur Stórsveitin fyrir árlegu stórsveitamaraþoni það sem allar stórsveitir landsins, ungar sem aldnar, koma saman og spila í hálftíma hver. Þannig leitast Stórsveitin við að tengja saman kynslóðir og efla stórsveitatónlist í landinu. Í heild má segja að reynt sé að hafa dagskrá hvers vetrar eins fjöbreytta og metnaðarfulla og mögulegt um leið og þess er gætt að allar gerðir ofangreindra verkefna komi fyrir.

Konfetti rignir yfir hljómsveitina á tónleikunum Gullöld sveiflunnar
Maria Schneider stjórnar 30 ára afmælistónleikum Stórsveitarinnar 2022

Gestir

Fjölmargir innlendir og erlendir gestir hafa komið fram með hljómsveitinni á liðnum árum sem einleikarar, einsöngvarar og gestastjórnendur, þeirra á meðal má nefna Bandaríkjamennina Bob Mintzer, Frank Foster, Dick Oatts, Tim Hagans, Bill Homan, John Fedchock, Greg Hopkins, Andrew D’Angelo, Travis Sullivan og Maria Schneider. Einnig má nefna lykilmenn í jazzheimi Norðurlanda s.s. Geir Lysne, Helge Sunde, Ole Kock Hansen, Eero Koivistonen, Lars Jansson, Fredrik Norén, Jesper Riis, Nikolaj Bentzon, Ulf Adåker, Lasse Lindgren, Daniel Nolgård og Pétur Östlund. Þá hefur þýsku tónskáldin Maria Baptist og Ansgar Stripens einnig unnið með sveitinni.